Flokkar: Gott að vita

Fækkum, flokkum og röðum

Megináherslan á námskeiðinu er að fjalla um það hvernig skipulag nýtist sem verkfæri í átt að bættri líðan og um mikilvægi þess að skoða raunverulegar þarfir okkar og langanir hér og nú og aðgreina þær frá þörfum og löngunum liðinna tíma.

Virpi vonast til að bæta líðan og létta lund þátttakenda og fjallar um alla þá þætti sem eru sammannlegir og sem flestir kannast við en sem okkur hættir stundum til að halda að hái engum í heiminum nema okkur sjálfum.

Þetta tveggja kvölda námskeið er ætlað öllum sem vilja fá hugmyndir um nýjar venjur og verkfæri til að takast á við krefjandi skipulags- eða tiltektarverkefni heima fyrir eða á vinnustaðnum. Milli fyrra og seinna kvölds býðst þátttakendum að velja sér verkefni til að prófa hugmyndir sem fjallað verður um á námskeiðinu.

Markmið Virpi er að á námskeiðinu fái allir svör við sem flestum af spurningum sínum og fari til síns heima eða til sinna starfa með nýjar hugmyndir um fyrstu skrefin í áttina að skýrara, léttara og einfaldara hversdagsskipulagi. Virpi starfar sjálfstætt í fyrirtæki sinu, Á réttri hillu og veitir bæði fyrirtækjum og heimilum skipulagsaðstoð www.arettrihillu.is

Leiðbeinandi: Virpi Jokinen, fyrsti vottaði skipuleggjandinn (e. Professional Organizer) hér á landi. Virpi er finnsk tveggja barna móðir, hefur búið á Íslandi í þrjá áratugi og talar íslensku reiprennandi. Hún er menntuð í myndlist og leiðsögn, lauk skipuleggjandanámskeiði í Helsinki haustið 2018 og er með diplómu á meistarastigi í jákvæðri sálfræði frá Endurmenntun Háskóla Íslands.

Athugið að þessi viðburður er einungis fyrir félagsfólk Sameykis.

Flokkar: Gott að vita