Samþykktir Framvegis

 

Samþykktir fyrir Framvegis – miðstöð símenntunar

Nafn félagsins, heimili og tilgangur

1.gr.

Félagið er einkahlutafélag og nafn þess er Framvegis-miðstöð símenntunar

2. gr.

Heimilisfang félagsins er að  Borgartúni 20, 105 Reykjavík.

3. gr.

Tilgangur félagsins er að stuðla að framboði á námstækifærum fyrir fólk á vinnumarkaði og að auka gæði fullorðinsfræðslu- og starfsmenntunar. Framvegis miðstöð símenntunar  skal hafa samstarf við aðra fræðsluaðila eftir atvikum.

Hlutafé félagsins

4. gr.

Hlutafé félagsins er 5.202.000 kr. (fimmmilljónir tvöhundruðogtvöþúsund krónur). Hlutaféð skiptist í hluti og er hver hlutur að fjárhæð þúsund krónur að nafnverði eða margfeldi þeirrar fjárhæðar. Allir hlutir hafa jafnan rétt miðað við fjárhæð. Eitt atkvæði fylgir hverjum þúsund krónum í hlutafé. Aðeins félög, samtök, lögaðilar og fyrirtæki mega eiga hluti í félaginu.

5. gr.

Hluthafafundi er heimilt með 2/3 hlutum greiddra atkvæða, svo og samþykki hluthafa, sem ráða yfir minnst 2/3 hlutum þess hlutafjár sem farið er með atkvæði fyrir á hluthafafundinum, að hækka hlutafé félagsins hvort heldur er með áskrift nýrra hluta eða útgáfu jöfnunarhluta.

Hluthafafundur einn getur ákveðið lækkun hluthafafjár.

6. gr.

Stjórn félagsins skal halda hlutaskrá samkvæmt lögum. Heimilt er að hafa skrána í tryggu lausblaðaformi eða tölvuskrá hana. Hlutaskrá skal geymd á skrifstofu félags og eiga allir hluthafar og stjórnvöld aðgang að henni og mega kynna sér efni hennar.

Í hlutaskrá skal greina:

  1. Hluti í númeraröð.
  2. Nöfn hluthafa, heimilisföng og kennitölu.
  3. Skráningardag eigendaskipta.

Stjórn félags skal að kröfu hluthafa eða veðhafa gefa út staðfestingu um færslu í hlutaskránni. 

 

Eigendaskipti að hlutum í félaginu

7. gr.

Óheimilt er að selja, veðsetja eða gefa hluti í félaginu án samþykkis stjórnar félagsins.

8.gr.

Hluthafar félagsins hafa forkaupsrétt fyrir hönd félagsins að fölum hlutum. Að félaginu frágengnu skulu hluthafar hafa forkaupsrétt að hlutum í hlutfalli við hlutafjáreign sína. Verði ágreiningur um verð hluta skal það ákveðið með mati tveggja óvilhallra aðila sem dómkvaddir skulu á heimilisvarnarþingi félagsins.

Forkaupsréttarhafi hefur tveggja mánaða frest til að beita forkaupsrétti sínum og telst frestun frá tilkynningu til stjórnar um tilboð. Þó mega eigi líða fleiri en þrír mánuðir frá því að kaup voru ákveðin þar til kaupverð er greitt. Ef fyrir liggur tilboð frá þriðja aðila sem forkaupsréttarhafi gengur inn í skulu þó ákvæði þess tilboðs gilda um greiðsluskilmála.

Hluthafar þurfa ekki að sæta innlausn hluta sinna nema lög standi til annars.

Verði eigendaskipti að hlutum í félaginu, með lögmætum hætti samkvæmt framansögðu, skal stjórnin, þegar hinn nýi hluthafi tilkynnir eigendaskiptin og sannar rétt sinn, færa nafn hans í hlutaskrána.

Hluthafafundir/Aðalfundir

9. gr.

Æðsta vald í málefnum félagsins, innan þeirra marka sem lög og samþykktir félagsins ákveða, er í höndum lögmætra hluthafafunda.

10. gr.

Aðalfundur skal haldinn á heimili félagsins fyrir lok  júní ár hvert.

Félagsstjórn skal boða til hluthafafunda og aðalfundar með tilkynningu í ábyrgðarbréfi eða á annan jafn sannanlegan hátt til hvers hluthafa sem skráður er í hlutaskrá félagsins.

Boða skal til hluthafafundar lengst fjórum vikum fyrir fund og skemmst sjö dögum fyrir fund. Fundarefnis skal getið í fundarboði. Hluthafar geta með skriflegu umboði veitt umboðsmönnum heimild til að sækja hluthafafund og fara með atkvæðisrétt sinn.

11. gr.

Hluthafafundur er lögmætur ef hann er löglega boðaður og hann sækja hluthafar eða umboðsmenn þeirra sem hafa yfir að ráða meira en 2/3 hlutafjár í félaginu að minnsta kosti. Verði fundur ólögmætur vegna annmarka að þessu leyti skal boðað til nýs fundar innan mánaðar með sjö daga fyrirvara og verður sá fundur lögmætur til að ræða þau mál sem ræða átti á fyrri fundinum án tillits til þess hveru margir hluthafar mæta. Hluthafafundur kýs fundarstjóra og fundarritara.

Einfaldur meiri hluti atkvæða ræður úrslitum á hluthafafundi nema öðruvísi sé mælt í lögum eða samþykktum þessum.

Samþykki allra hluthafa þarf þó til þess að:

  1. skylda hluthafa til að leggja fram fé í félagsþarfir fram yfir skuldbindingar sínar
  2. takamarka heimild aðila til meðferðar á hlutum sínum
  3. breyta tilgangi félagsins að verulegu leyti
  4. breyta ákvæðum samþykkta um hlutdeild aðila í félaginu eða jafnrétti þeirra á milli

Tillögur um breytingar á samþykktum félagsins eða um sameiningu þess við önnur félög eða fyrirtæki má ekki taka til meðferðar á fundum þess nema þess hafi verið getið í fundarboði.

12. gr.

Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:

  1. Stjórn félagsins skal skýra hluthöfum frá hag félagsins og rekstri þess á liðnu starfsári.
  2. Ársreikningur félagsins fyrir liðið starfsár skulu lagðir fram ásamt athugasemdum löggilts endurskoðenda  til samþykktar.
  3. Stjórn félagsins skal kjörin og löggiltur endurskoðandi.
  4. Tekin skal ákvörðun um hvernig fara skuli með hagnað eða tap félagsins á reikningsárinu.
  5. Ákvörðun skal tekin um greiðslur til stjórnar fyrir störf þeirra.
  6. Umræður og atkvæðagreiðslur um önnur málefni sem löglega eru upp borin.

13. gr.

Félaginu er óheimilt að verja hagnaði, réttindum eða eignum til annarra verkefna en þeirra sem samrýmast markmiðum og starfsemi félagsins, enda liggi fyrir ákvörðun stjórnar um ráðstöfun hverju sinni.

14. gr.

Fundargerðarbók skal haldin og í hana skráð það sem gerist á hluthafafundum. Fundarstjóri stýrir fundi og úrskurðar um ágreiningsatriði.

Aukafundi skal halda eftir ákvörðun stjórnar eða að kröfu hluthafa sem ráða a.m.k. einum tíunda hluta hlutafjár í félaginu. Skal krafan skriflega gerð og fundarefni tilgreint og fundur boðaður innan fjórtán daga. Ef stjórnin skirrist við að boða fund, eða aðalfund ef því er að skipta, eftir móttöku slíkrar kröfu má leita atbeina ráðherra samkvæmt 2. mgr. 62. gr. ehfl.

 

Stjórn félags og framkvæmdastjórn

15. gr.

Stórn félagsins skal skipuð fimm mönnum og þremur til vara til eins árs í senn. Stjórn félagsins stýrir öllum málefnum félagsins milli hluthafafunda og gætir hagsmuna þess gagnvart þriðja manni. Undirskriftir meirihluta stjórnarmanna skuldbinda félagið. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnarmanna sækir fund. Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála. Halda skal fundargerð um stjórnarfund.

Stjórn félagsins er óheimilt að veita hluthöfum, stjórnarmönum eða framkvæmdastjórum þess lán eða setja tryggingar fyrir þá. Sama regla gildir um maka þess aðila eða þá sem skyldir eru þessum aðila  ellegar standa þeim að öðru leyti nærri. Þetta bann nær þó ekki til venjulegra viðskiptalána.

16. gr.

Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Formaður boðar til stjórnarfunda. Hver stjórnarmaður getur krafist stjórnarfundar. Sama rétt á framkvæmdastjóri. Stjórnin skal setja sér starfsreglur þar sem nánar skal kveðið á um framkvæmd starfa hennar.

17. gr.

Stjórn félagsins ræður framkvæmdastjóra og ákveður laun hans og starfskjör. Hún veitir og prókúruumboð fyrir félagið.

Framkvæmdastjóri hefur með höndum stjórn á daglegum rekstri félagsins og kemur fram fyrir þess hönd í öllum málum sem varða venjulegan rekstur. Hann sér um reikningshald og ráðningu starfsmanna. Framkvæmdastjóri skal leggja fyrir stjórn allar ákvarðanir sem teljast óvenjulegar, meiriháttar og stefnumarkandi. Framkvæmdastjóra ber að veita stjórnarmönnum og endurskoðendum allar upplýsingar um rekstur félagsins sem þeir kunna að óska og veita ber samkvæmt lögum.

Reikningar félags og endurskoðun

18. gr

Á aðalfundum félagsins skal kjósa einn löggiltan endurskoðanda og endurskoðunarfélag. Skulu þeir rannsaka reikninga félagsins fyrir hvert starfsár og leggja niðurstöður sínar fyrir aðalfund. Endurskoðanda má hvorki kjósa úr hópi stjórnarmanna eða starfsmanna félagsins né mega þeir vera fjárhagslega háðir félaginu.

19. gr.

Starfsár og reikningsár er frá 1. janúar til 31. desember ár hvert..

Ársreikningur, undirritaður af félagsstjórn og framkvæmdastjóra, með áritun endurskoðanda og skoðunarmanns, skal lagður fram á skrifstofu félagsins í síðasta lagi viku fyrir aðalfund, skráðum hluthöfum til sýnis. Mánuði eftir samþykkt ársreiknings, þó eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsárs skal senda hlutafélagaskrá ársreikning eða samstæðureikning, ef svo ber undir, ásamt skýrslu stjórnar, áritun endurskoðanda eða skoðunarmanns og upplýsingar um hvenær ársreikningur var samþykktur.

Breytingar á samþykktum félagsins

20. gr.

Samþykktum þessum má breyta á lögmætum aðalfundi eða aukafundi með 2/3 hlutum greiddra atkvæða, svo og með samþykki hluthafa sem ráða minnst yfir a.m.k. 2/3 hlutum af því hlutafé í félaginu sem farið er með atkvæði fyrir á fundinum, enda sé annað atkvæðamagn ekki áskilið í samþykktum eða lögum, sbr. 68. Gr. ehfl. Samþykkt hluthafafundar um breytingu á samþykktum einkahlutafélags skal án dráttar tilkynnt hlutafélagaskrá, nema annað tímamark sé sérstaklega fram tekið í samþykktum þessum eða lögum, og tekur breytingin ekki gildi fyrr en hún hefur verið skráð.

21. gr.

Með tillögur um slit og skipti á félaginu skal fara sem um breytingar á samþykktum þessum. Þarf atkvæði hluthafa sem ráða minnst 2/3 hlutum af heildarhlutafé félagsins til að ákvörðun um slit sé gild. Hluthafafundur, sem tekið hefur löglega ákvörðun um slit félagsins, skal óska löggildingar hlutafélagaskrár á kosningu skilanefndar. Hluthafafundur sem tekið hefur löglega ákvörðun um slit eða skipti félagsins, skal einnig ákveða ráðstöfun eigna og greiðslu skulda með þeim hætti að einungis framreiknað hlutafé gangi til eigenda en eignir umfram skuldir skulu að öðru leyti renna til almannaheilla og verkefna í samræmi við tilgang félagsins.

Lokaákvæði

22. gr.

Þar sem ákvæði þessara samþykkta segja ekki til um hvernig með skuli farið skal hlíta ákvæðum laga um einkahlutafélag, svo og öðrum lagaákvæðum er við geta átt hverju sinni.

 

Þannig samþykkt á hluthafafundi félagsins þann 9. júní 2022.