Fyrir þau sem hafa minnst þriggja ára reynslu sem aðstoðarfólk tannlækna. 

Í stuttu máli þá er í raunfærnimati á tanntæknabraut farið yfir reynslu þína og þekkingu og hún metin til eininga á brautinni. Litið er svo á að það skipti ekki máli hvar þú öðlaðist færnina, ef þú hefur hana þá einfaldlega hefur þú hana.

Í raunfærnimati almennt er metin sú færni og þekking sem einstaklingar búa yfir. Færni má ná með ýmsum hætti til dæmis í gegnum starfsreynslu, starfsnám, frístundir og nám. Þetta getur verið bæði formlegt nám, sem fram fer innan skólakerfisins og óformlegt nám sem fer fram utan skólakerfisins, t.d. í starfi. Raunfærnimat er þannig mat á þeirri raunfærni sem viðkomandi hefur og litið er svo á að eðlilegt sé að meta hana óháð því hvernig hennar hefur verið aflað.

Dagskrá haustannar 2023

Skimunarviðtöl, 7. og 8. nóvember. 

Sjálfsmatsfundir:

Þátttakendur þurfa að skila eftirfarandi gögnum áður en kemur að sjálfsmatsfundi 1:

    • Staðfesting á starfi í a.m.k. 3 ár
    • Staðfesting á fyrra námi

Sjálfsmatsfundur 1 - færnimappa. Miðvikudag 15. nóvember kl. 15:00-16:00. 

Fyrir fundinn er gott að vera búin að finna til gögn og byrja að vinna færnimöppuna.

Sjálfsmatsfundur 2 - matslisti. Þriðjudagur 21. nóvember kl. 15:00-16:00. 

Matssamtöl 

Raunfærnimatinu lýkur með staðfestingu á metnum einingum og lokaviðtali hjá náms- og starfsráðgjafa.

Fyrir hver er raunfærnimat?

Þátttakendur þurfa að uppfylla þrjú skilyrði:

  1. hafa litla formlega menntun (þ.e. hafa ekki útskrifast úr framhaldsskóla)
  2. vera 23 ára eða eldri
  3. hafa lágmark 3 ára starfsreynslu í geiranum - í þessu tilfelli sem aðstoðarmanneskja tannlæknis

Þau sem hafa meiri menntun, t.d. stúdentspróf, en uppfylla hin tvö skilyrðin greiða sjálf fyrir raunfærnimatið.

Hvað er verið að meta?

Til mats eru verknámsáfangar brautarinnar auk bóklegra sérgreina, alls 97 einingar.

Dæmi um verknámsáfanga sem eru til mats eru aðstoð við tannlækningar, fjögurra handa tannlækningar, forvarnir og samskipti, röntgenfræði og sótthreinsun og dauðhreinsun. Bóklegar sérgreinar sem eru til mats eru t.d. heilbrigðisfræði, næringarfræði og líkamsbeiting. 

Kostnaður

Þau sem uppfylla skilyrðin þrjú: raunfærnimatið er þeim að kostnaðarlausu. 

Þau sem ekki eru í markhópi framhaldsfræðslu (t.d. hafa útskrifast úr framhaldsskóla): 186.000 kr. grunngjald og 2.280 kr. hver eining sem er metin (verðskrá sem tekur gildi 1. janúar 2024). Mörg stéttarfélög veita styrki fyrir raunfærnimati og er áhugasömum bent á að athuga það hjá sínu félagi.

Ferlið í raunfærnimati

  1. Skrá þig í raunfærnimat
  2. Mæta í viðtal hja náms- og starfsráðgjafa, annað hvort á netinu eða í til okkar í Borgartúnið
  3. Skila inn gögnum um fyrra nám og störf
  4. Mæta á sjálfsmatsfund þar sem færnimappa er fyllt út
  5. Mæta á sjálfsmatsfund þar sem matslisti er fylltur út
  6. Mæta í matssamtal / samtöl
  7. Mæta í viðtal hjá náms- og starfsráðgjafa þar sem farið er yfir niðurstöður og hvaða möguleikar eru færir í framhaldinu.

Fyrirkomulag matsins

Viðtöl hjá náms- og starfsráðgjafa geta farið fram hvort sem er hjá Framvegis, Borgartúni 20 í Reykjavík, eða á netinu, eftir því sem hentar best.

Hluti matssamtala fer fram á netinu og í samtali en önnur á Tannlæknadeild þar sem þátttakendur þurfa að sýna fram á verklega færni. Matssamtöl koma til með að fara fram bæði á hefðbundnum vinnutíma og utan hans. Fjöldi matssamtala og fyrirkomulag kemur í ljós þegar þátttakendur hafa skilað inn öllum gögnum og fyllt út matslista.

 Svona lítur ferlið í raunfærnimati út:

Frekari upplýsingar veitir Helga náms- og starfsráðgjafi Framvegis í síma 581 1900 eða helga@framvegis.is