Prjónanámskeið fyrir aðeins lengra komna þar sem kenndar verða aðferðir sem eru algengar á lettneskum vettlingum. Tvö skipti, 3 klst. í senn.
Svokallaðar fléttur og furunálar eru algengar á lettneskum vettlingum. Þær liggja eins og utan á prjóninu og gefa skemmtilega þrívídd í prjónið.Gera má ótal útgáfur af þeim og nota mis marga liti og gjörbreytir það útkomunni. Það er gaman að nota þessa aðferð til að setja svip á hinar ýmsu flíkur og má bæta þeim við hvaða uppskrift sem er.
Kenndar eru mismunandi útfærslur af fléttum og furunálum, auk þess verður kennd ,,létta-flétta“ og nokkur skemmtileg uppfit, þar á meðal mismunandi útgáfur af tvílitum uppfitum.
Fyrra kvöldið er áhersla á að ná tökum á fléttunum. Seinna kvöldið á að leika sér með fléttur og slétt og brugðið til að skapa alls kyns falleg mynstur og setja sinn persónulega svip á prjónlesið og auk þess prófaðuð ýmis skemmtileg uppfit.
Þátttakendur fá ljósrit með leiðbeiningum og gott er að taka með glósubók og skriffæri
Efni og áhöld sem þátttakendur koma með:
Ullargarn og prjónar í stærð sem hæfa garninu, hvítt eða ljóst í grunninn og að minnsta kosti tvo ólíka liti í sama grófleika. Um að gera að nota það garn sem til er. Prufur eru prjónaðar í hring svo takið með sokkaprjóna eða þá prjóna sem ykkur finnst best að nota.
Þetta námskeið hentar þeim sem hafa einhvern grunn í prjóni. Nauðsynlegt er að kunna að fitja upp og prjóna slétt og brugðið.
Tími: Þriðjudagar 11. og 18. febrúar kl. 18:00-21:00.
Staður: Framvegis, Borgartún 20, 3.hæð.
Leiðbeinandi: Dagný Hermannsdóttir er textílkennari að mennt. Hún er forfallin hannyrðakona og vart líður sá dagur að hún nái ekki að prjóna dálítið.
Hún hefur kennt alls kyns hannyrðir gegnum tíðina og undanfarið hefur hún meðal annars kennt ýmsar aðferðir og trix sem eru mikið notuð í Lettlandi.
Á Instagram má sjá eitthvað af prjóninu hennar á https://www.instagram.com/prjona_dagny/
Athugið að þessi viðburður er einungis fyrir félagsfólk Sameykis.